Bókaútgáfan Sæmundur - ný bók
Með grjót í vösunum eftir Svein Torfa Þórólfsson
Sveinn Torfi Þórólfsson (1945–2016) ólst upp á Skagaströnd til tíu ára aldurs en fluttist þá til Grindavíkur með fjölskyldu sinni.
Lífsbaráttan var hörð og oft var mikið lagt á hans ungu herðar. Hann vann í fiski, fór í sveit og stundaði sjómennsku frá barnsaldri. Sveinn braust af eigin rammleik til mennta. Hann var fyrst á Laugarvatni en síðan í háskólum á Íslandi og í Noregi þar sem hann settist að og starfaði sem verkfræðingur og prófessor.
Hér segir Sveinn Torfi frá æskuárunum á Skagaströnd þar sem hugmyndaflugið fékk að njóta sín í fjölbreyttum leikjum og síðan ljúfri dvöl í sveit á Höskuldsstöðum — en einnig harðneskjulegum unglingsárum.
Með grjót í vösunum geymir minningar um horfinn tíma og svipmyndir af eftirminnilegu fólki. Þetta er mikilsverð og bráðskemmtileg heimild um íslenskan veruleika um miðja síðustu öld.
Útgefandi er Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi.