Vinahót villimanna

Magellan, sem kunnugur var háttum villimanna, skildi að þetta voru vinahót og bað einn af hásetum sínum að dansa á sama hátt og strá sandi yfir höfuð sér. …

Sá sem hér skrifar er enginn annar Stefan Zweig (1882-1942) og segir frá því þegar landkönnuðurinn mikli Ferdinand Magellan hitti fyrir fótstóran mann í auðnum Patagóníu – nafn landsins var einmitt dregið af fótstærð frumbyggjans sem þarna jós sandi í hár sitt í fögnuði. Það er ekki bara að framkoma Magellan og skipshafnar hans við „villimanninn“ einkennist af nokkrum fordómum heldur gerir frásögn Zweig það ekki síður, svo sem sú fullyrðing að Magellan hafi verið kunnur háttum villimanna eins og frumbyggjar í öllum heimshlutum hefðu sameiginlegt táknmál.

En við skulum sjálf vara okkur á eigin fordómum, líka gagnvart frásagnarlist fyrri tíðar. Umfram allt er frásögn Zweigs af leiðangri Magellans um heimshöfin stórkostleg og áhugaverð lesning.