Selfoss svarthvítur árið 2011

Ljósmyndabók Gunnars Marel, Selfoss, er ekki dæmigerð landkynningarbók með glansmyndum af veruleikanum heldur frekar hrár og allt að því hranalegur en um leið heillandi prentgripur. Útgáfuárið 2011 sagði m.a. svo í bókmenntatímaritinu Spássíu:

Myndir Gunnars Marels fanga bæinn á óvenjulega hlutlausan hátt. Yfirleitt er ekki hægt að sjá tilraun til að draga fram fegurðina í umhverfinu eða undirstrika ljótleika.

Þótt mótsagnakennt megi virðast er það einmitt þetta sem gefur bókinni sjarma, gerir hana sérstaka og hnýsilega. Sjónarhornið virðist oft næstum tilviljunarkennt, mótífið ekkert sérstakt, aðeins smellt af yfir bæinn en samt er eitthvað aðdráttarafl í þeim.

Textabrotin skírskota til myndanna við hlið þeirra á ýmsan hátt en eiga það eitt sameiginlegt að tengjast Selfossi; þarna er allt frá lýsingum Íslendingasagnanna á landnámi í Ölfusi til skilgreininga erlendra bloggara á hugtökunum hnakki og skinka. Útkoman verður bráðskemmtileg; fróðleg, angurvær, kaldhæðin, hranaleg og smellin samsuða sem fær mann til að velta fyrir sér staðnum og fyrirbærinu Selfoss í nýju ljósi.