Besti vinur aðal!

“Var að ljúka lestri þessarar skínandi góðu bókar þar sem höfundurinn skipar sér í sveit með allra beztu blaðamönnum landsins fyrr og síðar. Mæli mjög með þessari bók. Svo er hún líka vel skrifuð af aðdáunarverðu listfengi.” 

Þetta skrifar sá mæti maður Þorvaldur Gylfason prófessor um bókina Besti vinur aðal sem kom út hjá Sæmundi nú á haustdögum. Höfundur er Björn Þorláksson sem lætur ekki sitt eftir liggja við bóksölu nú í vertíðinni. Sjálfur segir hann á fésbókarbloggi fyrir nokkrum dögum:

„Ég hitti í bókabúð í gær nokkra hundvana forleggjara og þeir supu hveljur þegar ég hvíslaði að þeim hve mörg eintök hafa farið út frá mér í heimasölu á stuttum tíma. En bókin Besti vinur aðal var líka sjötta söluhæsta bókin í bókabúðum í síðustu viku. Og í silfursæti hand-og fræðibóka. Algjört ævintýri! En sumum kaupendum finnst huggulegra og skemmtilegra að fá àrituð eintök og stundum drekk ég kaffi með kaupanda sem ég hef aldrei séð áður og svara spurningum um bókina. Persónulegt og skemmtilegt. Ég verð heima næsta laugardag kl 12-14 og þá er hægt að afgreiða ósóttar pantanir.“