Sögur úr síðunni

Þrettán myndir úr gleymsku

Sögur úr síðunni er heiti bókar Böðvars Guðmundssonar en í henni eru þrettán tengdar sögur sem allar gerast í einni og sömu sveitinni á áratugunum um og eftir seinni heimsstyrjöld. Við kynnumst fjölda eftirminnilegra persóna, bændum og búaliði, brúarvinnukörlum og gestkomandi fólki, sem lýst er af leiftrandi kímni og svo miklu næmi að lesanda finnst hann nauðaþekkja þetta fólk. Sögur úr síðunni opna lesendum glugga inn í horfinn heim sem er býsna framandi þótt hann sé ekki ýkja fjarlægur í tíma, heim íslensks sveitalífs um það bil sem „allt landið er að búa sig undir að flytja til Reykjavíkur án þess að gera sér grein fyrir því“. Böðvar Guðmundsson þarf vart að kynna fyrir íslenskum bókmenntaunnendum. Eftir hann liggur fjöldi ritverka, smásögur, ljóð, leikrit og skáldsögur sem notið hafa hylli landsmanna. Sögur úr síðunni komu fyrst út árið 2007 og hlutu frábærar viðtökur.